Snittur
. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

Vefannall: hugarflugur og uturdurar

27.6.02
Fimmtudagur - Grímuball

Í gönguferð í dag varð mér litið upp í glugga á húsi sem ég gekk framhjá. Á gluggakistunni stóð stytta sem vakti athygli mína. Þetta var hönd sem hélt á andlitsgrímu og svo var önnur gríma, hálfpartinn í lausu lofti. Grímurnar voru við það að kyssast.

Þetta minnti mig á hugmyndir um að þeir eiginleikar í fari ástvinar okkar sem við löðumst að séu oft þeir sömu og við eigum erfiðast með að umbera síðar í sambandinu. Sálgreining gefur þá skýringu að framhlið okkar, gríman, sé varnarháttur vegna veikleika okkar og við löðumst að manneskju sem hefur þróaðri varnarhætti vegna sömu veikleika. Við dáumst í raun að varnarháttunum því við viljum svo gjarna búa yfir þeim sjálf. Svo þegar við kynnumst því sem á bak við grímuna er sjáum við að hjartahnossið er með sömu veikleika og við og ef eitthvað er, jafnvel í meira mæli. Þar sem við fyrirverðum okkur fyrir þá þætti í eigin fari förum við að fyrirlíta sömu veikleika í fari annarra til að geta lokað augunum fyrir þeim hjá okkur sjálfum.

Þannig verðum við ástfangin af grímu. Vinnan hefst þegar persónurnar undir grímunum kynnast í afhjúpaðri nekt sinni.

Ég held ég hafi skilið þetta rétt.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 21:49
. . .
25.6.02
Þriðjudagur - Á slóðum Tarzans

Líkt og frumskógakönnuðurinn heldur inn í myrkviðinn með sveðju í hönd þyrftum við helst að grípa skóflu til að komast í rúmið. Það er þokkalega greiðfær leið að rúmunum okkar. Hvers þarfnast maður frekar? Koddinn minn, tebolli og góð bók nægir mér við svona frumstæðar aðstæður. Auðvitað gengur verkið hægt en við erum þó enn bjartsýn. Það er búið að flota í eldhúsgólfið. Múrarinn ætlaði að byrja á flísalögninni eftir hádegismat í dag en svo hringdi einhver í hann sem er sterkari en dauðinn. Sagðist koma aftur til okkar á fimmtudag.

Allir þurfa einhvern tíma að láta í minni pokann fyrir dauðanum. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað skilur á milli feigs og ófeigs við ýmsar aðstæður. Þessar vangaveltur mínar hafa vaknað við lestur bókarinnar "Leitin að tilgangi lífsins" eftir Viktor E. Frankl. Merkileg lesning.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 21:38
. . .
21.6.02
Föstudagur - Einu sinni, einu sinni enn

Við erum að pakka, einu sinni enn. Þó ekki til að flytja frekar en fyrri skiptin. Í tvígang hefur þurft að vinna í skólplögnunum með tilheyrandi múrbroti. Þá þurfti að pakka í bæði skiptin. Svo var lagt parket á nokkur gólf. Þá þurfti að pakka að hluta og selflytja á milli herbergja. Síðan rifum við niður vegg. Þá þurfti að pakka.

Núna verður ráðist í að steypa í gólfið öðru megin við horfna vegginn. Það reyndist miklu lægra en hinu megin. En fyrst þarf að tæma eldhúsið, fjarlægja neðri hluta innréttingarinnar, rífa upp gólfdúkinn og skafa gólfið. Múrarinn sagðist mæta klukkan 8:30 á mánudaginn. Svo þurfum við að rífa gólfteppið af holinu og hreinsa upp allt teppalímið. Eftir það verða lagðar lakkaðar, mexíkóskar flísar á gólfið.

Það verður þrautin þyngri að búa aftur til mannabústað. Dúkleggja eldhúsgólfið, málarinn að spartla og mála og smiðurinn að saga og negla.

Svo vil ég bara selja slotið. Kaupandi óskast að þriggja herbergja íbúð!



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 21:47
. . .
20.6.02
Fimmtudagur - Og þá var kátt í höllinni

Eiginmaðurinn átti afmæli í gær. Heima hjá okkur er alltaf til kaka þegar einhver á afmæli, hvort sem það er veisla eða ekki. Ég ákvað að gleðja hann með því að búa til uppáhalds rjómatertuna hans. Í 20 ára hjúskap okkar hef ég aldrei búið þessa tertu til! Það er búið að baka allar hugsanlegar útgáfur hingað til en ekki þessa því mér fannst hún ekki spennandi.

Viti menn, þegar sest var að borðum fékk ég mér sneið og er nú orðin forfallinn aðdáandi uppáhaldstertu ektamakans.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 19:50
. . .
17.6.02
Mánudagur - Síðast, en ekki síst

Í dag eiga
Kristilegar þunglyndissíður eins árs afmæli.

Þessi vefur er íslenska útgáfan af "Christian Depression Pages" sem ég þýddi. Vefurinn var stofnaður af bresku hjónunum Alison og Paul Hawke og bandarískri konu, Lara Ray. Þau veittu mér þann heiður að bjóða mér í hópinn í framhaldi af íslensku útgáfunni.

Ég er Guði þakklát fyrir þennan þátt í lífi mínu. Þetta er eitthvað sem hefur varanlegt gildi, ekki bara fyrir mig en aðra líka.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 22:04
. . .
Síðar, sama dag - Ef Múhammeð fer ekki til fjallsins...

Við sleppum alveg merkilega vel frá þessum þjóðhátíðardegi. Stefnan var tekin beint á Hljómskálagarðinn. Beint í hoppukastalana, nánast engar biðraðir ennþá. Eftir sykurkvoðu, meira nammi og Pétur Pókus, litum við inn í Listasafn Reykjavíkur. Aldrei komið þar áður. Erró beint í æð. Til að njóta fjölbreytileika mannlífsins til fulls var svo farið í Kolaportið. Pönnsur hjá pabba og mömmu í lokin.

Ég fékk óyrta ósk mína uppfyllta. Ég leitaði skjóls undan vindinum upp við rjóður. Þá heyrði ég í lúðrasveit. Hún beygði af götunni og inn í garðinn, og skrúðgangan á eftir. Liðið beygði svo út af gangstígnum og stefndi beint á mig. Ég ákvað að hvika hvergi. Hersingin staðnæmdist öll í tveggja metra fjarlægð frá mér. Hver pantaði þetta fyrir mig? Þarna stóð ég augliti til auglitis við prúðbúna skáta í nýstraujuðum skyrtum með íslenska fánann á stöngum. Þar fyrir aftan stóð þessi líka reffilega lúðrasveit í grænum búningum. Sonurinn spurði mig hvort þetta væru hermenn.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 19:13
. . .
Mánudagur - Hæ, hó...

Þá er búið að grannskoða dagskrá þjóðhátíðardagsins. Fjölskyldan er búin að koma sér saman um hvað sé áhugaverðast.

Þannig háttar til að hvorugur sona okkar hefur hrifist af skrúðgöngum. Mér finnst mjög gaman í skrúðgöngum, svo fremi að ég heyri í lúðrasveitinni. Eldri sonurinn er löngu hættur að fara með okkur í bæinn þennan dag. Þegar sá yngri nær þeim áfanga ætla ég að fara í allar skrúðgöngur sem bjóðast til að vinna upp glataðan tíma.

Það er svolítið skondið að fylgjast með í skrúðgöngum. Oft má sjá að töluverðu fé hefur verið varið til kaupa á hvers konar fagnaðarútbúnaði fyrir börnin. Niðurstaðan er þó oftast sú að dótið endar í höndum foreldranna því börnin hafa takmarkaða getu til að burðast með fánaveifu, rellu og blöðru þegar þau eru líka komin með risasleikjó, sykurkvoðu og gosdós.

Bróðir minn þoldi ekki skrúðgöngur. Í þeirri tíð báru allar konur litlar, harðar handtöskur með stuttu handfangi og var því venjulega smeygt upp á arminn. Taskan skagaði því út í loftið í mátulegri höfuðhæð við smáfólk. Hann var orðinn illa kvekktur á endurteknum höfuðhöggum af völdum handtaskna ókunnugra kvenna. Einu sinni fauk svo í hann að hann barði konuna. Fjölskyldan hefur alltaf verið hreykin af honum fyrir áræðið.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 09:28
. . .
14.6.02
Föstudagur - Litla gula hænan

Ég átti leið um Hverfisgötuna í dag. Mikið er ég fegin að hafa ekki verið í gulu sumardragtinni minni. Ég hefði annað hvort verið handtekin eða skotin af færi. Það var víst einhver á ferðinni sem hafði látið lögguna vita að hann þyldi ekki gulan lit. Eins gott að hann var hér ekki um páskana. Yfirvöld hefðu þá kannski fellt niður hátíðina að sinni í virðingarskyni við ferðalanginn.

Ég þoli ekki bleikan. Eins gott að Bára er flutt af Hverfisgötunni.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 21:28
. . .
13.6.02
Fimmtudagur - Ævintýrin gerast enn

Ég fann ótrúlegan stað í miðri Reykjavík í gær. Það er göngustígur sem liggur meðfram fjölfarinni umferðargötu. Hann liðast inn á milli trjáa og út á húsagötuna fyrir ofan. Við enda stígsins er grenitrjálundur. Trén eru há og þétt og hvolfast alveg yfir stíginn svo úr verður þétt þak úr barrgreinum.

Það var undrum líkast að standa í rökkrinu undir trjánum við þrumandi undirleik umferðarinnar og sjá stöku sólargeisla sem vogaði að þrengja sér niður á milli greinanna. Eitt augnablik var þessi staður umlukinn töfrahjúp sem gerði hann ósýnilegan þeim sem fyrir utan hefðu staðið. Þegar ég kom út úr lundinum helltist sólskinið yfir mig eins og ég hefði gengið út úr mynd á vegg. Ég ímyndaði mér að lundurinn hefði lokast á eftir mér og enginn þekkti leiðina inn nema ég.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 10:46
. . .
11.6.02
Síðar á þriðjudegi - Ekki ein báran stök

Ég var rétt að byrja að jafna mig eftir síðasta kvíðakast af völdum gesta með sérþarfir. Sá þurfti að aka um í sérpöntuðum bíl. Bíllinn var ekki einasta skotheldur en líka með styrktan botn svo hann þyldi að aka yfir jarðsprengju án þess að farþegana sakaði.

Mér brá svolítið að heyra þetta. Ég, ástvinir mínir og forfeður höfum fram til þessa farið hér um götur en þess að renna í grun að hætta væri á að við stigjum á jarðsprengjur. Núna fyrst er ég að byrja að skilja af hverju þurfti að girða af athafnasvæði þessa manns. Það var náttúrulega til að forða almenningi frá að verða grandað með jarðsprengju, eða í besta falli að missa útlim, þó svo að hér á landi sé starfrækt ein besta gervilimaverksmiðja í heimi. Við hin erum nefnilega bara á venjulegum bílum. Það liggur í augum uppi að þetta er nánast óbyggilegt land og ætti að girða það af og merkja sem jarðsprengjusvæði á lista hjá SÞ.

Annars fannst mér þessi maður svolítill eigingjarn. Það voru 29 aðrir karlar í heimsókn á sama tíma og þeir hittust allir 30. Á meðan hinir 29 fengu bara venjulegar, rándýrar límósínur að láni, ók þessi maður um í einkasprengjubyrgi. Fyrst það var svona mikil hætta á ferðum af hverju bauð hann ekki öllum hinum far með sér eða lét selflytja þá á milli staða?

Svo er líka annað sem þarf að endurskoða. Er ekki eðlilegt að fram fari áhættumat áður en svona gestir koma í heimsókn? Nú orðið þarf að sækja um umhverfismat ef maður vill tjalda, þó ekki sé nema sólskýli í eigin garði.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 16:59
. . .
Þriðjudagur - Til atlögu!

Maðurinn minn er mjög úrræðagóður. Hann er smám saman að tileinka sér mottóið mitt: "If you can't join them, beat them". Þetta á reyndar frekar heima í
enska vefannálnum mínum. Þetta þýðir gróflega: "Gerðu atlögu ef þú færð ekki aðgang".

Við vorum orðin ráðalaus gagnvart ágangi roðmauranna en eiginmaðurinn hálfpartinn datt niður á hugsanlega lausn. Hann fór með einhverjum karlaklúbbi út úr bænum í gærkvöldi. Það var allt morandi í mýflugum í sveitinni. Þegar hann kom heim og hengdi sportjakkann sinn upp, sá hann að hann hafði framið fjöldamorð þegar hann hallaði sér aftur í sætið í rútunni. Jakkinn þarf að fara í þvottavélina því bakið er þakið klesstum flugnaleifum. Sumar líta út eins og teiknimyndafígurur sem lenda á rúðu með útrétta limi.

Kannski getum við haldið aftur af roðmaurunum með því einfaldlega að setjast í gluggakistuna. Oj!



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 12:39
. . .
10.6.02
Mánudagur - Bimm, bamm, bimm, bamm, bimbi rimbi rim bamm

Ég las í blaði að einhver sem er að koma til landsins hafi lagt fram beiðni um að þurfa ekki að sjá eitthvert fólk. Væri ekki einfaldast að binda fyrir augun á gestinum? Vilji hann ekki heldur heyra í fólki getur hann notað eyrnatappa. Einhver sem ræður þessu segir að einfaldast sé að passa að þetta fólk komi ekki nálægt honum af því að með honum séu menn með byssur sem gætu farið að skjóta á fólkið af tilefnislausu. Væri ekki einfaldara að taka byssurnar af mönnunum eða leyfa þeim bara ekkert að koma með honum?

Viljum við hafa vopnaða, óbreytta borgara með illviðráðanlegan gikkfingur á götum úti? Viljum við fá gesti sem hafa svoleiðis fylgdarlið? Ætti ekki fólk sem þarf svona ribbalda til að slá skjaldborg í kringum sig, bara að vera heima hjá sér. Er það okkar hinna að finna ráð við víðáttufælni þeirra og aðsóknarhugmyndum?

Ef það er svona hættulegt að heimsækja okkur, hvað erum við þá að bjóða veslings manninum hingað? Hann væri miklu öruggari heima hjá sér.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 09:09
. . .
9.6.02
Sunnudagskvöld - Fótbolti

Merkilegt hvað dottið getur út úr fólki.

Ákafir íþróttaspekúlantar ræddu fjálglega um það sem fram fór á vellinum í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Eitthvað var mikið um brot og refsispjöld. Annar þeirra sagði um einn leikmannanna að hann væri svo "aðskotaillur". Kannski er þetta nýyrði í fótbolta um leikmann sem klúðrar alltaf stoðsendingum.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 23:31
. . .
Sunnudagur enn og aftur - Allt fyrir friðinn

Það er maður í götunni okkar sem er alltaf að gera við bílinn sinn. Ég hef oft velt því fyrir mér hversu mikið er hægt að gera við einn bíl. Maður, sem virðist hafa svona mikið vit á bílum, getur varla átt svo mikla druslu að hún þurfi endurlífgun um hverja helgi og nokkur kvöld í viku. Þetta vekur með mér þær grunsemdir að það vaki eitthvað allt annað fyrir þessu manni. Ég sé hann sjaldnast með verkfæri í hönd. Hann bograr undir opinni vélarhlífinni með tvist í hönd. Af og til rekur hann höndina niður í drullugt dótið og nuddar eitthvað. Viðgerðargallinn hans er svo útklíndur í smurolíu og drullu að halda mætti að hann hefði komið svona frá framleiðanda. Getur verið að kona þessa manns sé með hreingerningaræði en honum finnist svo gaman að vera skítugur að til að halda heimilisfriðinn hafi þau komið sér saman um þetta fyrirkomulag?



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 13:00
. . .
Sunnudagur ennþá - Adam var ekki lengi í paradís

Ég var að þrífa gluggakistuna í eldhúsinu. Þar sem við búum á jarðhæð verður þessi gluggakista, sem og allar hinar í íbúðinni, að vinsælum áfangastað roðmaura. Undanfarin ár höfum við getað takmarkað aðgang þeirra að þessari paradís með því að nota flugnapenna. Við strikuðum bara eftir gluggakistunni endilangri og þeir gáfu upp öndina nánast um leið og þeir fóru yfir strikið. Eiginmaðurinn fór út á bensínstöð í gær til að birgja okkur upp af þessu stórvirka efnavopni. Þar var honum tjáð að pennarnir hefðu verið teknir af markaði því að í þeim hefði verið hættuleg efni.

Sko, þess vegna notuðum við svona penna. Ég get ekki ímyndað mér að roðmaurarnir hafi bara platað okkur og þóst vera dauðir.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 12:02
. . .
Sunnudagur - Í upphafi var...

Undur og stórmerki!
Þetta verður hefðbundin fyrsta ritun í vefannálinn minn. Þegar innsláttarformið var komið upp á skjáinn fór um mig streituskjálfti. Ég spurði upphátt hvað í ósköpunum ég ætti svo sem að skrifa hér. Stoð mín og stytta, eiginmaðurinn elskulegi, svaraði að bragði: "Þú verður nú ekki í neinum vandræðum með það". Alltaf góður.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 11:44
. . .


. . .