Svo lengi lærir sem lifirÉg er komin aftur í skóla. Dagskóli fjölbrautarskólans í Ármúla varð fyrir valinu.Stór hluti nemenda gengur með farsíma í hönd utan kennslustofa. Það er verið að líta eftir smáskilaboðum eða senda þau, taka af skelfinn og setja hann á aftur og svo er reynt að tala í símann á meðan haldið er fyrir hitt eyrað svo eitthvað heyrist. Þetta vakti með mér minningar um hvað gert var sér til dundurs á fyrstu menntaskólaárum mínum. Farsímarnir minntu mig á hvernig við stelpurnar gengum alltaf um með "gloss" í annarri hendinni til að halda því volgu svo það smyrðist betur. Íslenskukennarinn minn mundi grípa fram í fyrir mér og biðja mig um að þýða orðið "gloss". Þetta var slangur okkur yfir varagljáa. Gljáinn var í nettu, ílöngu glerglasi, lítið sverara en vindlingur. Það var með áskrúfuðu loki. Þar undir var "roll-on", þýðist ávelta, sbr. áveita. Gljáinn fékkst með ýmsum bragðtegundum. Ég var hrifnust af appelsínubragði. Það þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvort öðrum líkaði bragðið af gláa manns. Maður sleikti hann snarlega af sjálfur. Fljótlega þurfti að bæta við nýju lagi, helst svo þykku að einna helst mátti gera sér í hugarlund að varirnar væru að bráðna af.Það er merkilegt hvernig útlínur og áferð vara eru breytingum undirorpin, sérstaklega þar sem ekki hefur orðið nein líffræðileg breyting í aldanna rás. Það er skammt síðan tíðkaðist að teikna útlínur varanna utan við þær og mála fylla svo upp í með ljósari varalit en blýanturinn var í. Tilgangurinn var að láta varirnar virðast þykkari og framstæðari. Það er orðið nokkuð langt gengið ef hversdagskonan þarf að tileinka sér sjónhverfingar myndbyggingar og formfræði til að setja upp andlitið.Í fyrsta dönskutímanum áttum við að skrifa stuttan pistil um eigin líkama. Bekkjarfélagi minn spurði: "Hvað eru varir á dönsku?" Mig langaði að spyrja á móti: "Hefurðu aldrei notað "læbestift"?" Kennarinn notaði tækifærið og teiknaði Óla prik á töfluna og ritaði svo við hina ýmsu líkamshluta. Þegar svo búið var að draga örvar þar á milli rifjaðist upp fyrir mér að eitthvað þessu líkt var gert þegar okkur voru kennd þessi sömu dönsku orð í ellefu ára bekk. Það eru þrír áratugir síðan. Það hafa ekki orðið neina stökkbreytingar síðan, hvorki á mannslíkamanum né dönsku. Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 22:45 . . .
Miðvikudagur - Litlir snillingarAlveg eru krakkar með eindæmum.Smápjakkur sat á hjóli í vinnunni minni í dag. Ég spurði hann sposk hvort hann væri nokkuð glanni. Hann leit á mig hneykslaður og sagði: "Ég heiti ekki Danni. Hvað heitir þú?" Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 22:07 . . .
Sunnudagur - Takk fyrir síðast"Maður hefur bara ekkert séð þig!" Mig langar alltaf til að svara: "Nú, er það!"Reyndar læt ég út úr mér: "Já, hvar hefur þú verið?" Mér finnst svo asnalegt að segja annarri manneskju eitthvað í fréttaformi sem báðir aðilar vita jafnvel. Mér finnst líka að ef maður saknar einhvers svo óskaplega að maður þurfi að finna að fjarverunni loksins þegar við hittumst þá gæti sá hinn sami alveg verið búinn að gera eitthvað í málunum ef návist mín er slíkt hjartans mál.Í vikunni las ég úr minningargrein eitthvað á þessa leið:"Jonni minn, það átti fyrir þér að liggja að vera tvíkvæntur. Fyrri kona þín var Guðrún Pálsdóttir. Þið slituð samvistum. Þú kynntist seinni konunni þinni nokkru síðar og þið bjugguð ykkur fallegt heimili í Breiðholtinu. Þú varst alltaf svo glaður þegar við litum inn."Hvað ef líkið sneri sér við í gröfinni og segði: "Ha?" Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 22:48 . . .
Fimmtudagur - MerkisdagurMerkisdagur í dag. Það eru liðin 24 ár síðan ég ákvað að trúin yrði hluti af veruleika mínum. Líf mitt breyttist ekki og ekki heldur ég. Alla jafna er þetta ekki ákvörðun sem tekin er á einum degi. Hún á sér aðdraganda og tekur líka sinn tíma að mótast eftir á. Trúin hefur haft sín áhrif á lífsgildi mín og stefnu. Ég sé ekki eftir því. Trúin hefur vissulega líka flækt líf mitt til muna því hún vekur með mér ábyrgðartilfinningu gagnvart lífinu sem mér er gefið. Það er ekki endilega trúnni að kenna heldur reyni ég stundum um of að vanda mig og tek tilveruna of hátíðlega. Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 14:30 . . .
Mánudagur - Skór ÖskubuskuSjónvarpsprédikari sagði að konur ættu ekki að ganga á háum hælum. Ástæðan ku vera sú að það aflagar líkamsstöðu þeirra svo göngulag þeirra verður sérkennileg. Það vekur athygli karlmanna á munúðarfullan hátt. Það er ekki sæmandi að kona njóti slíkrar athygli annarra en eiginmanns síns. Vilji kona ganga á háum hælum á hún eingöngu að gera það innan veggja heimilisins í návist eiginmanns síns, honum til yndis og ánægju.Skyldu konur mega ganga berfættar á tánum á almannafæri?Biblían segir ekki mikið um skó. Hún minnist á skóreimar. Á einum stað er manneskju sagt að fara úr skónum en ekki með orðunum: „Farðu úr háhæla skónum.“Það er furðulegt hvað sumir karlar hafa mikið fyrir því að reyna að stjórna lífi kvenna. Af hverju eru þeir svona smeykir við konur? Kyneðli kvenna virðist valda þeim sérstökum áhyggjum. Þvingar það þá til að horfast í augu við myrku hliðina á eigin mána?Þetta snýst örugglega um stjórn. Getur verið að það snúist ekki um að stjórna konum heldur um ótta karlmanna við að missa sjálfsstjórnina? Sé það raunin, eru þeir að gera konur ábyrgar fyrir hegðun karla. Það er gömul saga sem endurtekur sig í sífellu. Hún hófst í Eden: „Hún lét mig…“ Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 14:29 . . .
Sunnudagur - Af hverju ekki konur?Nú er gengið í gildi bann við einkadansi á nektarbörum í Reykjavík. Ég heyrði í hádegisfréttunum að eigendur slíkra staða barma sér ekki mikið, segjast verða af einhverjum tekjum en það sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Ég er fegin að heyra að það skuli ekki hafa verið fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem voru í húfi þegar þeir mótmæltu fyrirætlunum borgaryfirvalda um að sporna við þessari þróun tjáningarfrelsisins erlendra listamanna.Annað er það sem vekur athygli mína í allri umræðu um þessi mál. Manneskjurnar sem dansa eru alltaf kallaðar "stúlkur". Stelpur eru óábyrgar og ósjálfstæðar, stelpur leika sér og þarfnast umsjár karlmanna sem geta gert þær út. Að kalla þær "stúlkur" gegnir ekki öðrum tilgangi en að ópersónugera þær. Þær eru fullorðnar manneskjur, konur."Kona", kallar á virðingu. Það vísar til vitsmunaveru, eiginkonu, móður og systur. Mundi þessa karla langa til að horfa á eiginkonu sína, móður eða systur skekja sig á speglasviði undir slefandi eggjunarhrópum? Mundu karlar vilja horfa upp á dóttur sína sötra kampavín í beinharðri kjöltu fnæsandi viðskiptavinar? Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 14:26 . . .