Snittur
. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

Vefannall: hugarflugur og uturdurar

27.6.02
Fimmtudagur - Grímuball

Í gönguferð í dag varð mér litið upp í glugga á húsi sem ég gekk framhjá. Á gluggakistunni stóð stytta sem vakti athygli mína. Þetta var hönd sem hélt á andlitsgrímu og svo var önnur gríma, hálfpartinn í lausu lofti. Grímurnar voru við það að kyssast.

Þetta minnti mig á hugmyndir um að þeir eiginleikar í fari ástvinar okkar sem við löðumst að séu oft þeir sömu og við eigum erfiðast með að umbera síðar í sambandinu. Sálgreining gefur þá skýringu að framhlið okkar, gríman, sé varnarháttur vegna veikleika okkar og við löðumst að manneskju sem hefur þróaðri varnarhætti vegna sömu veikleika. Við dáumst í raun að varnarháttunum því við viljum svo gjarna búa yfir þeim sjálf. Svo þegar við kynnumst því sem á bak við grímuna er sjáum við að hjartahnossið er með sömu veikleika og við og ef eitthvað er, jafnvel í meira mæli. Þar sem við fyrirverðum okkur fyrir þá þætti í eigin fari förum við að fyrirlíta sömu veikleika í fari annarra til að geta lokað augunum fyrir þeim hjá okkur sjálfum.

Þannig verðum við ástfangin af grímu. Vinnan hefst þegar persónurnar undir grímunum kynnast í afhjúpaðri nekt sinni.

Ég held ég hafi skilið þetta rétt.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 21:49
. . .


. . .