Snittur
. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

Vefannall: hugarflugur og uturdurar

11.6.02
Síðar á þriðjudegi - Ekki ein báran stök

Ég var rétt að byrja að jafna mig eftir síðasta kvíðakast af völdum gesta með sérþarfir. Sá þurfti að aka um í sérpöntuðum bíl. Bíllinn var ekki einasta skotheldur en líka með styrktan botn svo hann þyldi að aka yfir jarðsprengju án þess að farþegana sakaði.

Mér brá svolítið að heyra þetta. Ég, ástvinir mínir og forfeður höfum fram til þessa farið hér um götur en þess að renna í grun að hætta væri á að við stigjum á jarðsprengjur. Núna fyrst er ég að byrja að skilja af hverju þurfti að girða af athafnasvæði þessa manns. Það var náttúrulega til að forða almenningi frá að verða grandað með jarðsprengju, eða í besta falli að missa útlim, þó svo að hér á landi sé starfrækt ein besta gervilimaverksmiðja í heimi. Við hin erum nefnilega bara á venjulegum bílum. Það liggur í augum uppi að þetta er nánast óbyggilegt land og ætti að girða það af og merkja sem jarðsprengjusvæði á lista hjá SÞ.

Annars fannst mér þessi maður svolítill eigingjarn. Það voru 29 aðrir karlar í heimsókn á sama tíma og þeir hittust allir 30. Á meðan hinir 29 fengu bara venjulegar, rándýrar límósínur að láni, ók þessi maður um í einkasprengjubyrgi. Fyrst það var svona mikil hætta á ferðum af hverju bauð hann ekki öllum hinum far með sér eða lét selflytja þá á milli staða?

Svo er líka annað sem þarf að endurskoða. Er ekki eðlilegt að fram fari áhættumat áður en svona gestir koma í heimsókn? Nú orðið þarf að sækja um umhverfismat ef maður vill tjalda, þó ekki sé nema sólskýli í eigin garði.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 16:59
. . .


. . .