Snittur
. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

Vefannall: hugarflugur og uturdurar

5.8.02
Mánudagur - Skór Öskubusku

Sjónvarpsprédikari sagði að konur ættu ekki að ganga á háum hælum. Ástæðan ku vera sú að það aflagar líkamsstöðu þeirra svo göngulag þeirra verður sérkennileg. Það vekur athygli karlmanna á munúðarfullan hátt. Það er ekki sæmandi að kona njóti slíkrar athygli annarra en eiginmanns síns. Vilji kona ganga á háum hælum á hún eingöngu að gera það innan veggja heimilisins í návist eiginmanns síns, honum til yndis og ánægju.

Skyldu konur mega ganga berfættar á tánum á almannafæri?

Biblían segir ekki mikið um skó. Hún minnist á skóreimar. Á einum stað er manneskju sagt að fara úr skónum en ekki með orðunum: „Farðu úr háhæla skónum.“

Það er furðulegt hvað sumir karlar hafa mikið fyrir því að reyna að stjórna lífi kvenna. Af hverju eru þeir svona smeykir við konur? Kyneðli kvenna virðist valda þeim sérstökum áhyggjum. Þvingar það þá til að horfast í augu við myrku hliðina á eigin mána?

Þetta snýst örugglega um stjórn. Getur verið að það snúist ekki um að stjórna konum heldur um ótta karlmanna við að missa sjálfsstjórnina? Sé það raunin, eru þeir að gera konur ábyrgar fyrir hegðun karla. Það er gömul saga sem endurtekur sig í sífellu. Hún hófst í Eden: „Hún lét mig…“



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 14:29
. . .


. . .