Snittur
. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

Vefannall: hugarflugur og uturdurar

3.7.03
Fimmtudagur - Eitthvað fyrir alla

Loksins, loksins! Vorið er komið og farið, grundirnar grónar og sláttur víða hafinn. Þá er ekki úr vegi að skella einhverju á skjáinn.

Það er í tísku að halda þemabrúðkaup. Fólk gengur í hjónaband neðansjávar, presturinn með súrefnisgeyma og allar græjur. Útlendingar koma til landsins til að láta gefa sig saman uppi á jöklum eða í íshellum. Hugmyndirnar takmarkast ekki við annað en þanþol ímyndunaraflsins.

Morgunblaðið í dag greinir frá brúðkaupsferð nýgiftra hjóna. Þau gistu í tjaldi sem er náttúrulega mjög rómantískt og þá helst af því að veðurfarið á Íslandi er kannski ekki það allra áreiðanlegasta og því sérstaklega til þess fallið að sanna ást sína á hverju sem dynur. Það hleypur engin svo glatt heim til mömmu þegar slettist upp á vinskapinn í tjaldútilegu.

Þetta var sannkallað þemabrúðkaup, þemabrúðkaupsferð, eða öllu heldur ránsferð! Brúðhjónin höfðu sér það til afþreyingar að stela úr verslunum og af heimilum á svæðinu. Kannski nýstárlega útfærsla á gjafalistum sem hægt er að láta útbúa fyrir sig í fínni búðum. Fara bara og ná sér sjálfur í það sem mann langar í og spara gestunum sporin og fjárútlátin.



Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 15:59
. . .


. . .