Fimmtudagur - HollráðÍ gærkvöldi hlustaði ég á sjónvarpsþáttastjórnanda spyrja fólk á förnum vegi hvað það gerði til að fá ekki kvef. Þarna komu fram fjölmargar tillögur. Allir sögðu að sín aðferð svínvirkaði.Þetta vakti mig til umhugsunar um heilsuæðið. Það má ekki verða veikur. Það má ekki vera veikur. Auðvitað vill enginn verða né vera veikur. En sumir verða og eru það samt. Við virðumst halda að við getum ráðskast með þennan líkama að vild og náð þeim árangri sem til er ætlast. Ein hugmyndin var hugleiðsla. 10 mínútna hugleiðsla á dag kemur í veg fyrir kvef. Ætli það séu sérstakar kvefæfingar? Svo þurfi annars konar hugleiðsluæfingar fyrir influensu? Ætli það sé hægt að kaupa pakkatilboð á afsláttarkjörum? Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim sem hafa gert hugleiðslu að föstum þætti í lífi sínu. Ég er að gagnrýna þessa uppskriftahugsun skyndilausna. Ég geri því skóna að fólk sem hugar af vandvirkni að sínu innra lífi, hvort heldur er með hugleiðslu eða öðru, hafi tilhneygingu til að fara almennt betur með sig. Það hlustar á líkama sinn og tekur hann alvarlega. Og þegar líkaminn "talar" við það og lætur vita að eitthvað gæti farið að gefa sig er dregið úr ferðinni og líkamanum gefið svigrúm með því að draga úr álagi og auka hvíld og hressingu. Ég er alveg viss um að hugleiðslufólk fær líka kvef. Ég er líka viss um að það lætur ekki eins og himinn og jörð séu að farast ef það kvefast. Það má þá alltaf nota rúmleguna til meiri hugleiðslu. Ritað hefur Ólöf I. Davíðsdóttir 09:57 . . .