Vestur-Íslendingar í Kanada- og Bandaríkjaher 1914-18 og 1939-45

Á árunum 1870-1910 flutti tæplega þriðjungur þjóðarinnar frá Íslandi og til nýrra heimkynna í Vesturheimi. Eftir nokkurt flakk settist fjölmennasti hópurinn að lokum að á suðvesturströnd Winnepegvatns í Kanada og stofnaði þar nýlendu sem þeir kölluðu Nýja Ísland. Í dag er nýlendan hluti af fylkinu Manitoba sem og fólkið sem hana býr. Í upphafi bjuggu í nýlendunni einungis Íslendingar og Indíánar af Ojibwa (Chippewa, Anishinabi) og Cree þjóðerni. Seinna fluttu þangað innflytjendur frá Úkraínu og Póllandi sem lögðu sitt í það samfélag sem í dag byggir Nýja Ísland.

Í upphafi var Kanada bresk nýlenda sem eftir sjálfstæði hélt konungssambandi við Bretland. Það samband olli því að er Fyrri og síðar Seinni heimsstyrjöldin braust út 1914 og 1939, þá var Kanada þar af leiðandi knúið til þátttöku í stríðinu við hlið Bretlands. Hervæðing Kanada 1914 olli því að Íslendingar þurftu í fyrsta sinn í sögunni að gegna herþjónustu eins og allir aðrir þegnar ríkisins.

Samkvæmt Minningarriti íslenzkra hermanna 1914-1918 (1923) áttu Íslendingarnir upphaflega að gegna herþjónustu saman með öðrum Skandinövum í 223. herdeild (223. Division) og síðar einnig í 197. herdeild (197. Division). Það fyrirkomulag var hins vegar aflagt og voru Íslendingarnir dreifðir um allan kanadíska herinn eins og aðrir innflytjendur. 223. herdeild varð samt sem áður sú deild sem flestir Íslendinganna gegndu herþjónustu í.

Samanlagður fjöldi Íslendinga í herjum beggja landa 1914-18 var 1.303 karlar og konur. Í kanadíska hernum voru 989 (79%) Íslendingar og 256 (21%) í bandaríska hernum. Um afganginn, 58 manns, er ekkert vitað annað en að nöfn þeirra voru íslensk.

Af þeim 1.245 sem upplýsingar hafa fengist um, er vitað að 391 (31%) þeirra voru fæddir á Íslandi, 456 (37%) í Kanada og 304 (24%) í Bandaríkjunum. Um 94 er ekki vitað um fæðingarstað.

Af þessum 1.245 einstaklingum komust 1.101 (88%) lífs af en 144 (12%) létust af eftirtöldum ástæðum. Á vígvöllunum féllu 92 en 19 dóu síðar af sárum sínum á sjúkrahúsi og gefur það heildarmannfall í bardögum 111 manns eða tæp 9%. 27 karlar og 1 hjúkrunarkona létust úr sjúkdómum 2 dóu af slysum og 2 voru skráðir týndir. 207 (17%) særðust en lifðu af og 10 voru teknir til fanga af Þjóðverjum. 128 (89%) þeirra sem dóu voru í Kanadaher en 16 (11%) í Bandaríkjaher.

Framganga Íslendinganna var sú að 27 voru sæmdir heiðursmerkjum fyrir hugprýði og góða frammistöðu og var 1 hjúkrunarkona sæmd æðsta heiðursmerki fyrir yfirstjórn á sjúkrahúsi bak við víglínuna. 26 voru yfirforingjar (Commissioned Officers) og 59 undirforingjar (Non-Commissioned Officers).

Til að líkna særðum voru 4 íslenskir læknar, 3 í Kanadaher og 1 í Bandaríkjaher, og 14 hjúkrunarkonur, 8 í Kanadaher og 6 í Bandaríkjaher.

Langflestir Íslendinganna gerðust hermenn af frjálsum vilja. Aðalástæður flestra þeirra fyrir herþjónustunni voru ekki sprottnar af hugsjónum eða sérstakri hollustu við Kanada, heldur voru draumar um ævintýri í stuttan tíma helsti áhrifavaldurinn. Kanadastjórn hafði í áróðri sínum fyrir því að fá menn til að gegna herþjónustu sagt að stríðið mundi aðeins standa í stuttan tíma. Metnaður, drenglyndi og skyldurækni eru ástæður sem rómantískir fræðimenn nefna til sögunnar. Án efa hefur þjóðarstoltið eitthvað spilað inn í varðandi þá staðreynd að 223. herdeild var í upphafi eyrnamerkt sem sér skandinavísk eining. Jarðbundnari og raunsærri skýringar hafa hins vegar varpað nýju ljósi á þessa gömlu söguskoðun. Mikið atvinnuleysi var á þessum árum í Kanada og var hermennskan eina atvinnan sem í boði var enda 69% íslensku hermannanna verkamenn. Framtíðarhorfur voru því ekki bjartar fyrir ungt fólk í Kanada.

Íslenska samfélagið í Kanada slapp ekki frá herþjónustunni frekar en önnur þjóðarbrot á þessum ófriðarárum enda óaðskiljanlegur og óaðgreinanlegur hluti af hinu kanadíska ríkjasambandi, sem einnig var tengt breska konungsdæminu. Óvinir hins metnaðargjarna breska heimsveldis voru þar af leiðandi sjálfkrafa óvinir íslensku innflytjendanna sem nú voru þegnar Kanadaríkis. Ísland undir nýlendustjórn Dana var aftur á móti aðgreinanleg eining sem langt fram eftir öldum var landfræðilega einangrað landsvæði sem enga aðra óvini átti en sjálfa sig. Það var ekki fyrr en sjóræningjar frá Miðjarðarhafsströndum Norður Afríku fóru einstöku sinnum að sigla hingað norður eftir til að ræna, drepa og handsama fólk til að selja mannsali, að Íslendingar eignuðust sæmilega skýrt afmarkaðan sameiginlegan óvin. Sú táknmynd var hins vegar ekki lífsseig enda ránsferðir sjóræningja hingað til lands sjaldgæfar og stóðu einungis yfir í stuttan tíma. Áhrifanna frá henni gætti þó nokkuð lengi, sérstaklega á þeim svæðum sem ræningjarnir höfðu komið við á.

Þessi tilfinnanlegi skortur á skýrt afmörkuðum ytri óvin olli því að landsmenn fengu aldrei tilfinningu fyrir þörfum á landvörnum af neinu tagi. Með fullveldi 1918 og síðar fullu sjálfstæði landsins 1944 á tímum sterkrar þjóðerniskenndar, varð hugmyndin um hið hlutlausa og herlausa Ísland ómissandi þáttur í þjóðernishugmyndum landsmanna. Þó svo að sumir leiðtogar landsins og helstu forkólfar í sjálfstæðisbaráttunni á borð við Jón Sigurðsson, hefðu í skrifum sínum viðrað hugmyndir um íslenskan her eða einhvers konar landvarnarsveitir, þá urðu nú samt ofan á rómantískar og göfugar hugmyndir um friðelskandi samfélag úti á miðju Norður Atlantshafi. Hin nýja og djarfa tilraun til mótunar þessa rómantíska nýfrjálsa samfélags voru allra góðra gjalda verðar. Veruleikinn var hins vegar allur annar og fengu Íslendingar nasaþefinn af því í Fyrri heimsstyrjöldinni er Bretar komu sér hér upp minniháttar aðstöðu fyrir her sinn. Miskunnarlaus veruleiki Seinni heimsstyrjaldarinnar með hernámi Breta og Bandaríkjanna á landinu og eftirmálar hennar, gerðu það að verkum að nauðsyn reyndist á að taka gömlu göfugu hugmyndirnar til endurskoðunar. Sú endurskoðun var brýn og langt frá því að vera sársaukalaus. Fallegir draumar eru alltaf ákjósanlegri en kaldur raunveruleikinn en á endanum er það raunveruleikinn sem ræður. Áður hlutlausum ríkjum var gert að velja tvær efnahagslegar og pólitískar andstæður sem í svokölluðu Köldu stríði skiptu heiminum á milli sín. Þessar andstæður voru annars vegar Vesturlönd þar sem ríkti kapítalískt hagkerfi og lýðræðislegir stjórnarhættir, og hins vegar Austantjaldslöndin sem aðhylltust kommúnískt hagkerfi undir flokksræði eins flokks. Forysturíki hvors aðila um sig voru Bandaríkin fyrir Vesturlönd og Sovétríkin fyrir Austantjaldsríkin. Á endanum biðu Austantjaldsríkin ósigur sökum meingallaðs efnahagskerfis og brostinna væntinga þegna sinna. Sumir hafa reyndar haft á orði að réttur aðili hafi tapað Kalda stríðinu en rangur aðili unnið það.

Ísland var eitt þessara landa sem neyddist til að velja hvoru megin það vildi standa. Landið var ekki lengur einangrað úti á ballarhafi heldur líkt við risastórt flugmóðurskip sem væri mikilvægur lykill að siglinga- og árásarleiðum á Norður Atlantshafi milli meginlanda Evrópu og Ameríku.

 

Heimildir

1923. Minningarrit íslenzkra hermanna, 1914-1918. Winnipeg: Félagið Jón Sigurðsson.

Guðjón Arngrímsson. 1998. Annað Ísland: Gullöld Vestur-Íslendinga í máli og myndum. Reykjavík: Mál og menning.

 

Íslenskir hermenn,
í tímaröð:

1600-1700

1700-1800

1800-1900

1900-2000

2000-2100

Vestur-Íslendingar í Kanada- og Bandaríkjaher 1914-18 og 1939-45

Íslenskir friðargæsluliðar

Heimavarnarlið Vestmannaeyja 1855-69

Lífvarðasveit Jørgen Jørgensens 1809

Mikilvægir sögulegir atburðir frá 1600 til 2000

Íslenskir hermenn:
oft er hermanns örðug gangan

Tign og hlutverk

Herskipulag