Home Amerindians Renape

Location

Division

History

Culture & Society

Mohicans

Introduction

Part I
Being There
Villages & Hamlets
Population

Part II
Society and Culture
The First Of Times

Speak To Me
Clay, Skins and Wood
Clans & Relatives
Homo Politicus
Homo Economicus
Homo Religiosus / A Need For Faith
Being a Mohican
Dealing With The Chuckkathuks

History
The Days of Old
The First Relations

The Lucrative Fur Trade
Times of Upheaval
New Power Brokers
A Changed World
Age of Emptiness
The Stockbridge Mission
The Moravian Mission
The Aftermath of the American War of Independence
Struggling in the West
The New Stockbridge
On the Road

The New Reservation

Part III
Epilogue

Appendix
Mohican-English Dictionary

Mohican Nation Stockbridge-Munsee Band

Debra J. Winchell's Mohican Homepage

Robert Shubinski's Mohican Homepage

New York Map Portfolio

 

 

Renape
Muhheakunneyuk (Mohicans)

 

 

History
The Days of Old

Upphafsins að sögu Mohicananna sem afmarkaðs hóps má líklega rekja aftur til Point Peninsula Complex-menningartímabilsins frá um 700 e. Kr. Menningarþróun sú sem hófst á meðal Iroquoisanna, Eldri Owasco (Early Owasco), um 1000 e.Kr. hafði áhrif á Mohicanana og jókst stöðugt á 14. öld. Áhrif Iroquoisanna voru hins vegar mun meiri meðal Warranawonkong-Munseeanna og Wappingeranna á meðan að Mohicanarnir sjálfir streittust á móti þessum nýjum áhrifum frá erkióvinunum Iroquoisunum. Á seinni hluta 16. aldar voru hins vegar leirker Mohicananna orðin nánast eins og Mohawkanna og áhrif hinna síðastnefndu voru greinileg í goðsögnum og félagsættarkerfi Mohicananna. Á þessum tíma náðu áhrif Mohicananna alla leið suður til strandar í New York ríki og austur til Connecticut ár (Brasser 1974).

Samkvæmt sögnum kom Mohican bandalagið úr vestri. Nánustu skyldmenni þeirra, fyrir utan Munseeana og þjóðirnar fyrir sunnan þá, voru Pequotarnir og Moheganarnir en talið er að þeir séu afkomendur hinna dularfullu Adirondacka sem hafi búið á austurströnd Champlain vatns fyrir ofan Hudson dal. Adirondackar þessir voru samkvæmt sögnum Iroquoisanna taldir hafa verið Algonquian-mælandi yfirþjóð sem hafi í margar aldir kúgað Iroquoisana. Að lokum gerðu Iroquoisarnir uppreisn gegn þeim og eftir langt og blóðugt stríð unnu Iroquoisarnir sigur og hröktu Adirondackana frá sínum upprunalegu heimkynnum við Champlain vatnið. Það sem rennir stoðum undir þessa sögn er að hinir herskáu Pequot-Moheganar eru taldir hafa flust búferlum suður eftir Connecticut dal og ýttu úr vegi öðrum friðsamari Indíánaþjóðum, þar til þeir að lokum settust að í Thames dal. Ólíkt öðrum Indíánaþjóðum í Nýja Englandi bjuggu Pequot-Moheganarnir í víggirtum þorpum og hatur þeirra og óvild í garð Mohawkanna og annarra Iroquoisa var að sögn mjög magnað. Svo virðist vera, að við komu Evrópubúa til norðausturhluta Ameríku, hafi Algonquian þjóðirnar verið í laustengdu bandalagi hver við aðra og undirokað Iroquoian-mælandi þjóðflokkana fyrir norðan sig. Meðal Lenapeanna var til sú sögn að Algonquian-þjóðirnar hafi verið sameinaðar í ,,einu húsi, einu eldstæði og einum eintrjáningi" (Ruttenber 1872:64). Aldraður Mohicani sagði hinum Þýsk-ættaða séra John Gottlieb Ernestus Heckewelder eftirfarandi frásögn af tilvist þessa bandalags:

,,Um allt þetta land (frá Albany til Potomac), hafði ái okkar [Lenni Lenape (Delaware)] langhús, með hurð á sitt hvorum enda sem voru ætíð opnar þeim þjóðum sem voru í bandalaginu. Til þessa húss komu þjóðir um langan veg til að reykja friðarpípuna með áa sínum [Lenni Lenape]. Hvíta fólkið sem kom yfir hafið mikla, settist því miður að við sitt hvorn endann á langhúsi forfeðra vorra og það leið ekki á löngu áður en það fór að rífa það niður frá sitt hvorum endanum. Ái okkar [Lenni Lenape] hélt samt áfram að gera við húsið sem styttist óðum, þangað til að hvíta fólkið, sem var nú orðið mjög öflugt, hjálpaði sameiginlegum óvini okkar, Maquaunum [Iroquoisunum], að byggja sterkt langhús á rústum langhúss forfeðra vorra."
(Heckewelder í Ruttenber 1872:64-65.)

Eins og vel kemur fram í þessari frásögn, er ljóst að koma Evrópubúanna og neikvæð áhrif af sambýlinu við þá veikti að þetta víðfeðma bandalag Algonquian þjóðanna. Þau neikvæðu áhrif sem hinn aldraði Mohicani vísar til hér að ofan, voru hörmulegar afleiðingar þess að sjúkdómar, sem Indíánarnir höfðu ekkert ónæmi fyrir, stráfelldu allt að 90% íbúanna á mjög skömmum tíma. Ofan á þetta allt þjónaði það ekki hagsmunum nýlendubúa að vopna hina Algonquian-mælandi nágranna sína sem þá og þegar gætu snúist gegn átroðningi Evrópubúa inn á lönd þeirra og auðlindir. Sjúkdómsfaraldrarnir orsökuðu jafnframt stórfelldar breytingar á samfélagskerfi og menningu innfæddra og sú staðreynd að Algonquian-mælendur bjuggu á þeim svæðum sem lágu næst byggðum Evrópubúanna, olli því að sjúkdómsfaraldrar voru mun tíðari meðal þeirra en Indíánaþjóðanna inni í landi. Þetta orsakaði pólitískt tómarúm og óstöðugleika þegar valdajafnvægið á svæðinu gerbreyttist. Ný tækifæri sköpuðust fyrir Iroquoian-mælendur til að bæta sinn hlut og breyta valdajafnvæginu sér í hag. Betra pólitískt skipulag og nýtilkomnir yfirburðir í fjölda gerði þá að sterkari aðilanum á svæðinu. Það sem gerði hins vegar útslagið var sú staðreynd að búseta Iroquoian-mælendanna á aðal bifurveiðisvæðunum, gerði þá að mun mikilvægari bandamanni fyrir Evrópubúana en Algonquian-mælendanna á strandsvæðunum. Englendingar, Hollendingar og Svíar sáu sér hag í því að sjá Iroquoisunum fyrir byssum og skotfærum, sem notuð voru til að veiða fleiri bifra og einnig til að halda niðri og kúga Algonquian-mælandi nágranna Evrópubúanna. Þegar fram liðu stundir jókst síðan mikilvægi Iroquois-bandalagsins - sem yfirbugað hafði allar aðrar Iroquoian-mælandi nágrannaþjóðir sínar - sem bandamanna Englendinga gegn Frökkum.


Dvínandi áhrif Lenapeanna - sem gengu undir virðingarheitinu áar (afar) en flestar Algonquian-þjóðirnar á strandsvæðunum töldu sig upprunalega vera frá þeim komna - sem forystuþjóðar meðal Algonquian-mælendanna endurspeglaði það nýja valdajafnvægi sem hægt og sígandi tók við af gamla skipulaginu. Innrás hinna Iroquoian-mælandi Susquehanna (Conestoga), frá ættlöndum sínum við ofanverðan Susquehanna-dal, niður í neðri hluta dalsins bolaði Lenapeum út úr gervöllum dalnum. Landflótta Lenapear settust að meðal þjóðbræðra sinna í Delaware-dal sem eftir það urðu aðal heimkynni þessa þjóðflokks. Til að auka enn á niðurlægingu hinna virtu Lenapea, neyddu Susquehannarnir þá til að borga sér skatt en megnið af Susquehönnunum hafði tekið sér bólfestu í víggirtum þorpum í gömlum byggðum Lenapanna í neðri hluta Susquehanna-dals. Útþensla Susquehannanna orsakaðist vegna þess að auðug bifursvæðin á lendum þeirra við ofanverðan dalinn gerði þeim kleift að kaupa mikið magn skotvopna af Hollendingum í Hudson-dal. Sókn þeirra suður á bóginn var gerð með því markmiði að komast nær verslunarstöðum Evrópubúanna við ströndina og jafnframt til að komast úr nábýlinu við fjendur sína Iroquois-bandalagið. Þegar Svíar stofnuðu nýlendu í Delaware-dal árið ? boluðu Susquehannarnir Lenapeunum burt af stóru svæði á vesturbakka Delaware-ár til að hafa óheftan aðgang að verslunarmiðstöð Svíanna í Fort Christina. Vegna þessa voru þorp Lenapeanna aðallega að finna á austurbakka Delaware-ár þó svo Lenapearnir nýttu enn landsvæði sín á vesturbakkanum undir veiðar og akuryrkju.

Þegar Iroquois-bandalagið hafði unnið lokasigur á Susquehönnunum, neituðu Lenapearnir að gangast sjálfkrafa undir Iroquoisana. Sú neitun orsakaði grimmúðlegt stríð Lenapeanna og Munseeanna við Iroquoisanna sem lauk með ósigri þeirra fyrrnefndu. Lenapearnir og Munseearnir neyddust til að gera samning við Iroquoisana þar sem Lenapearnir féllust á að leggja niður vopn og gegna hlutverki sáttasemjara og milliliðs fyrir Iroquoisana. Í þessu samhengi gengu þeir undir virðingarheitinu konur sem í raun gerði þeim kleift að viðhalda að mestu sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin málum. Gallinn var hins vegar sá að samningurinn færði Iroquoisunum úrslitavald í málefnum Lenapeanna, jafnframt því að Lenapearnir urðu að borga Iroquoisunum árlegt skattgjald. Virðingarheitið ,,konur" gerði Lenapeunum það jafnframt ókleift að beita vopnum gegn nokkurri annarri þjóð. Samt sem áður var samningur Lenapeanna mun betri en nokkur önnur sigruð þjóð gerði við Iroquisanna.

Það sem kannski skiptir mestu máli í þessu samhengi var að á meðal Iroquoisanna voru til nokkur stjórnmálaleg virðingarstig sem voru mótuð eftir hinu almenna virðingarstigi karlmanna í samfélaginu. Stiginn byrjaði á drengur, síðan kom unglingur, karlmaður, aðstoðarmaður hinna opinberu kvenkokka, stríðsmaður og að lokum öldungur en þeir áttu rétt á höfðingjatitli í ráðinu. Þegar Iroquoisarnir fóru að undiroka aðrar þjóðir, notuðu þeir þetta skema til að flokka með sigraðar þjóðir og fór staða hinna sigruðu gagnvart Iroquoisunum eftir því á hvaða stigi þær voru teknir inn. Á þessu módeli voru hin nýju samskipti Lenapea og Iroquoisa mótuð en þeir voru teknir inn sem aðstoðarmenn hinna opinberu kvenkokka. Það stig fól í sér að Lenapearnir voru í biðstöðu með að hljóta þegnrétt inn í bandalag Iroquoisanna en slíkan þegnrétt fengju þeir fyrst að undangengnum löngum reynslutíma. Að þessu leyti var hlutskipti þeirra betra en hinna landflótta frænda Iroquoisanna, Tuscaroranna. Tuscarorarnir leituðu skjóls hjá Iroquoisunum eftir að stríð við þýska landnema og bresk yfirvöld í Norður Karólínu ríki, hafði leitt af sér ósigur þeirra og þeir verið hraktir burt af löndum sínum. Iroquoisarnir tóku þessa Iroquoian mælandi frændur sína inn á lægsta stiginu, þ.e. drengsstiginu. Hlutverk Lenapeanna var því samkvæmt þessu mjög svo virðingarvert en það sem kannski skipti mestu máli og það sem lá að baki þessu samkomulagi, var það að Lenapeunum var meinaður sá réttur að heyja stríð og þá sérstaklega við Iroquoisana. Einnig voru Lenapearnir ein af fáum þjóðum sem Iroquoisarnir sigruðu, sem var leyft að halda að mestu sínu hefðbundna stjórnarmynstri (Baldur 1996b, Hodge 1907).

Mohicanarnir voru í varnarbandalagi við og áttu friðsamleg samskipti við Wappingerana, Sokokiana, Munseeana, Lenapeana og flestar þjóðirnar fyrir austan þá og samkvæmt því sem Hollenski sagnfræðingurinn Johannes de Laet segir voru þeir skæðustu óvinir Mohawkanna og einnig sá óvinur sem Mohawkarnir óttuðust mest. Fjandskapur var einnig við Ottawana sem bjuggu á og við Manitoulin eyju í Huron vatni.