24. febrúar
Ekkert ætlar tíminn að hægja á sér og ótrúlegt að hugsa til þess að febrúar sé á síðustu metrunum. Konudagurinn í dag og við sendum öllum konum bestu kveðjur af því tilefni! Þeir feðgar færðu mér blóm auk þess sem að Ástþór Örn hafði
beðið pabba sinn að kaupa fyrir sig gjöf handa mér...vekjaraklukku!! Sigurður varð við þessari ósk og í morgun beið mín því kort með mynd af mér og innpökkuð vekjaraklukka. Praktískar gjafir ansi góðar og vekjaraklukkan mun koma sér ansi vel enda sú sem hefur verið á náttborðinu mínu orðin frekar lúin!
Við vorum öll farin að hlakka til að fá helgarfrí á föstudaginn og hér var haldinn fyrsti fundurinn í leynifélaginu Skemmtun. Bökuðum pizzur, súkkulaðiköku og höfðum það notalegt.
Ástþór Örn fór hinn hressasti að sofa en vaknaði nokkrum tímum seinna með skelfilega magakveisu. Hlífi ykkur við nákvæmum lýsingum en hér þurfti að setja í þvottavél á mjög svo ókristilegum tíma og við vorkenndum aumingja stráknum okkar voðalega mikið. Þeir feðgar sváfu hér á svefnsófann í stofunni um nóttina (sváfu reyndar ansi lítið).
Í gær var Ástþór Örn svo slappur og þeir feðgar dormuðu hér yfir sjónvarpinu. Ég var ekki alveg viss í gærkvöldi hvort að ég væri að taka þessa pest en fór snemma í háttinn og sem betur fer varð ekkert úr því.
Við höfum nú bara verið í rólegheitum í dag og slepptum því að fara í kveðjuboð til frænku Sólveigar frænku Sigurðar sem er á leið til Pakistan og í útskrift til Möllu. Maður vill nú kannski ekkert vera að mæta á mannamót
kannski með magakveisu í farteskinu. En við Sigurður vonum að við séum sloppin. Leiðinlegur þessi pestatími.
En hér eru nokkrar myndir, hafið það öll gott.

Lítill krúsilíus í baði. Á föstudaginn fór ég með hann í 9 vikna skoðun, sem gekk vel. Hann er að þyngjast
og lengjast vel, hafði bætt við sig rúmum 600 grömmum síðan í 6 vikna skoðunni (sem hann var reyndar 7 vikna
þegar hann fór í) og lengst um rúman cm.


Ástþóri Erni finnst voðalega spennandi þegar litli bróðir er baðaður í balanum!


Og litla bróður finnst um það bil allt spennandi við þennan stóra bróður sinn!!




Þessir bræður eru svo ómótsæðilega sætir :o)

Og enn ein samanburðarmynd!! Þegar ég tók þessa mynd af Arnaldi Kára mundi ég eftir mynd sem var
tekin af Ástþóri Erni 16. apríl 2003...þá var hann rétt tæplega tveggja mánaða.


Ástþór Örn er voðalega duglegur að kenna Arnaldi Kára hitt og þetta og hér er verið að fara yfir litina!!

Og ein feðgamynd í lokin!