6. janúar
![]()
Þrettándinn runninn upp. Jólin liðið ansi hratt þykir okkur. Ástþór Örn sótti um framlengingu á jólunum í dag, aðallega þar sem hann mátti ekki heyra á það minnst að jólatrénu yrði bara hent hér út fyrir og sótt
á næstu dögum! Honum þótti það heldur dapurleg örlög þessa fína trés. Ljósin fá kannski að lifa í gluggunum hans aðeins lengur en skrautið ætlum við nú að fara að setja aftur ofan í kassa.
Annars er allt gott að frétta af okkur. Ástþór Örn fór í leikskólann síðasta fimmtudag, þar var svo starfsdagur á föstudag en á morgun byrjar svo allt á fullu eftir gott jólafrí.

Þreyttur herramaður sem er nú yfirleitt alltaf ansi vær og góður.

Ástþór Örn í "skátaleik", en þá er lagst í útilegu hér í holinu og skemmt sér vel.

Ansi notalegt að hvíla sig aðeins á mömmubringu!

Það er líka voða notalegt að kúra hjá stóra bróður.

Ástþór Örn er að fara í gegnum mikið snyrtipinnatímabil og þykir ansi fínt að vatnsgreiða hárið,
setja á sig smá Spidermanilmvatn og fá eitthvað krakkagel í hárið sem ég keypti einhvern tímann fyrir mistök!
Aðalmálið er að fá hár eins og "Robinsonstrákurinn" - sem sagt Lárus í Meet the Robinsons.
Eftir að við mæðgin höfðum farið í jólaklippinguna 13. des "lagaði" Ástþór Örn sína aðeins þegar heim var komið...
tók svo sem enginn eftir því þá en í gær fengu svolítið fleiri lokkar að fjúka.

Klippingin er því ansi sérstök núna og spurning um að hafa samband við hana Kristínu sem klippir okkur til að fá
hana til að bjarga málunum. Amma Kata benti nú reyndar á að henni sýndist nú tískan vera þannig að það þætti
bara flott að vera með toppinn og allt hárið svolítið skringilega og "illa" klippt!!

Farið út með nokkur stjörnuljós fyrr í kvöld. Við létum öðrum eftir að sprengja upp í kvöld.


